Í dag er stofndagur Trésmiðjunnar Akur, en textinn hér að neðan er fengin úr grein sem birtist í Skesshorni í dag í tilefni af 60 ára afmæli fyrirtæksins.

Trésmiðjan Akur var stofnuð af þrennum hjónum 20. nóvember 1959. Þetta voru þau Magnús Lárusson húsgagnasmiður og Hallfríður Georgsdóttir, Gísli S. Sigurðsson húsasmiður og Erla Guðmundsdóttir og Stefán Teitsson húsasmiður og Fríða Lárusdóttir. Magnús og Hallfríður seldu sinn hlut árið 1964 en Gísli og Erla sinn hlut árið 1996. Í dag er fyrirtækið alfarið í eigu Stefáns og Fríðu og fjölskyldu þeirra. Halldór sonur þeirra er framkvæmdastjóri og Stefán Gísli Örlygsson, barnabarn þeirra hjóna, er byggingastjóri.

Stofndaginn 20. nóvember 1959 bar upp á föstudag. Föstudagur er til fjár, eins og segir í þjóðtrúnni og það á sannarlega við í tilfelli Akurs. Fyrirtækið lifir góðu lífi og er 60 ára í dag, enn rekið á sömu kennitölunni og fyrirtækinu var úthlutað daginn sem það var stofnað. Slíkt er langt því frá að vera sjálfgefið í þeim sveiflukennda geira sem fyrirtækið starfar í.