Verkferill
Fyrsta skrefið er undirritun verksamnings og fylgiskjala, sem eru byggingarlýsingin og samningur um byggingarstjórnun, ef verkkaupi kýs að Akur taki þann þátt að sér.
Ef verkkaupi kaupir hús tilbúið undir tréverk, 2. byggingarstig, er verkferlið eftirfarandi;
1. Gröftur
Verkkaupi lætur grafa fyrir húsi og setja fyllingu í rétta hæð undir sökkulveggi.
2. Steypa sökkuluveggja.
Verkkaupi steypir sökkulveggi skv. teikningum Akurs og 50 mm plasteinangrun er sett innan á þá. Í sökkulveggi þarf að steypa inn Ø12 mm skrúfteina sem útveggjaeiningar eru síðan festar við.
3. Fylling inn í sökkla og lagnir.
Eftir að búið er að fylla inn á milli sökkla eru fráveitulagnir lagðar í grunn og utan með og ídráttarrör fyrir rafmagn, síma, vatn og hitaveitu. Allt gert skv. teikningum Akurs. Best er að ganga frá öllum þessum lögnum strax út að lóðamörkum þar sem heimæðar eru. Síðan er fyllt að sökkulveggjum með malarfyllingu u.þ.b. 1,5 m útfrá sökkulveggjum. Þá er í raun hægt að grófjafna lóð með mold.
4. Gólfplata og lagnir.
Þegar verkkaupi hefur lokið 3. lið er 75 mm gólfplast sett undir gólfplötu og steypustyrktarjárn sett. Milli gólfplötu og sökkulveggja er sett 25 mm þéttullareinangrun sem slítur kuldabrú þar á milli. Oft eru neysluvatnslagnir lagðar “rör í rör” og þá oftast komið fyrir undir plasteinangrun, ef um gólfhitalagnir er að ræða, en þær eru oftast bundnar við steypustyrktarjárn í gólfplötunni. Neysluvatns- og gólfhitalagnir eru lagðar skv. teikningum Akurs. Þegar allar lagnir eru komnar á sinn stað er hægt að steypa gólfplötuna.
5. Reisning hússins að fokheldi (1. byggingarstigi).
Nú er komið að Akri að reisa húsið. Í Gæðahandbók Akurs skiptum við þessum verkþætti í 16 verkliði. Þeir geta verið færri við einfaldari hús. En í megin dráttum er ferlið eftirfarandi;
- Sökkulreim er fest á innsteypta skrúfteina.
- Útveggjaeiningar reistar og festar við sökkulreim. Toppleiðari settur yfir veggeiningar sem bindur þær saman.
- Sperrufestingum komið fyrir og kraftsperrur festar við útveggi og gaflsperrum settar á gafla hússins.
- Timburklæðning negld á sperrur.
- Vindlokum og loftrásarrörum komið fyrir og klætt framan á þakkantinn.
- Þakpappi og þakjárn sett á. Gengið frá áfellum, kjöljárni og skotrennum.
- Þakrennur settar framan á þakkant og niðurfallsrör tengd fráveitulögnum í jörðu.
- Samskeyti útveggjaeininga klædd af, þétt undir sökkulreim.
- Klætt upp undir þakkantinn.
- Bílskúrshurð sett í.
6. Frágangur hússins undir tréverk (2. byggingarstigi).
Nú hefst vinna við einangrun og klæðningar. Í Gæðahandbók Akurs er um að ræða 11 verkliði og áður en Akur líkur við þá þarf að koma pípulagningarmönnum og rafvirkjum að verki samhliða. En verkferlið er í megindráttum eftirfarandi;
- EI-60 veggur settur upp. (Ef bílgeymsla er sambyggð íbúðarhúsi.)
- Einangrun þaks og útveggja.
- Rakavarnarlag (þolplast) í loft og á útveggi.
- Afréttigrind/lagnagrind í loft og á útveggi. Þegar þessum verklið er lokið koma pípulagningarmenn og rafvirkjar að verkinu og ljúka við lagnir í loft og á útveggi.
- Klæðning lofta.
- Áfellur kringum glugga og útihurðir.
- Klæðning útveggja
- Milliveggjagrindur settar upp, einangrun og klæðning. Hér koma pípulagningarmenn og rafvirkjar aftur að verkinu og vinna samhlið Akursmönnum.